Irún

Borgin markar upphaf El Camino Norte eða Norðurleiðarinnar á Spáni.

Íbúafjöldinn er um 61.980. Irún er staðsett á bökkum Bidasoa árinnar í Gipuzkoa héraði Baskalandsins stutt frá landamærum Frakklands, hún er ein af mikilvægari iðnaðar og verslunarborgum Baska. Borgin hefur yfir sér nútímalegt yfirbragð en þó er hægt að finna þar minjar frá 16. öld eins og tvær fallegar byggingar í barokkstíl, ráðhús bæjarins og Santa María de Juncal kirkjuna sem skartar framhlið í fallegum barokk stíl.

Menningar- og íþróttastarfsemi er mjög fjölbreytt í Irún, frá golfi, hestaferðum, svifreiðum og kanóum, til margra þjóðlegra og alþjóðlegra hátíða, þar á meðal kvikmyndir, leikhús, myndbandalist eftir unga kvikmyndagerðarmenn, og svo mætti lengi telja.

San Sebastian (Donostia)

Íbúafjöldi San Sebastian er um 190 þús. Borgin sem er ein ríkasta borg Spánar, stendur við Biscay flóann við mynni Urumea árinnar sem er leidd í skurð um borgina. Frá borginni eru um 20 km til Frakklands og má sjá hin glæstu Pýrineafjöll frá borginni. Borgin er höfuborg Gipuzkoa sem er sérstakt sjálfstjórnarsvæði innan Baskalands, (en það býr yfir sjálfstjórn frá Madrid).

Það er ekki mikið um gamlar minjar í borginni þar sem hún hefur verið brennd til grunna mörgum sinnum i gegnum aldirnar, sérstaklega í stríðum á milli Frakka og Spánverja.
Skeljalaga flói sem borgin stendur við, Bahía de la Concha mótar sandströndina; La Playa de la Concha 1,5 km dásamlega falleg strönd sem margir notfæra sér á góðum degi. Fyrri ströndin sem sést þegar komið er niður Ulia fjall heitir Playa de Zurriola.

Þegar gengið er eftir Jakobstígnum birtist bærinn af fjallinu Ulia sem gengið er eftir, falleg sjón að sjá bæinn nálgast smám saman. Eins er ákaflega fallegt að sjá bæinn af Igueldo fjallinu þegar gengið er áfram út úr bænum daginn eftir.

Af gömlum minjum má nefna Maríukirkjuna frá 18. öld, Basilíca de Santa María við calle Agosto í gamla bænum, nauðsynlegt er að sjá hana, hún er opin frá 10-17. Hún er í barokk stíl með einstaklega fallega framhlið.

Hér er mikil matarmenning og hvergi eru fleiri Michelin staðir samankomnir á einum stað. Smáréttirnir ( tapas) sem hér eru nefndir pintxos eru dásamlegir, hvergi eins fjölbreyttir, en í Baskalandinu eru þetta mjög ríkulega skreyttir smáréttir og að koma inn á barina í gamla bænum og smakka þessa rétti er mikil lífsreynsla. Það iðar allt af lífi, fólk talar hvert í kapp við annað og myndast skemmtileg stemming bæði inni á barnum og í þröngu götunum í gamla bænum en þar eru flestir barirnir.

Meðal árlegra hátíða í San Sebastian má nefna kvikmyndahátíðina Donostia Zinemaldia í september ár hvert og síðan er jazzhátíðin Jazzaldía í júlí.

Áhugaverðir pintxos staðir: A Fuego Negro, Bodega Donostiarra, Paco Bueono, Txepetxa og La Viña.

Getaría

Getaria er fallegur fiskibær í Guipuzcoa, íbúar eru um 3000. Gotneska kirkjan sem þar er heitir San Salvador er frá 15.öld.

Local hvítvínið er txacoli, allt um kring má sjá vínekrurnar þar sem þetta vínið er framleitt.
Hér er hinn frægi tískurisi Cristobal Balenciaga fæddur 1895.

Getaria hefur allt, gamall fallegur sjávarbær sem er umlukinn grænni náttúru, lítil eyja útivið sem heitir Mont San Antón, ( ratón de Getaria), hægt að ganga út í eyjuna, þar er einhverskonar þjóðgarður, mikið fuglalíf og fallegt útsýni. Efst uppi er gamall viti þar sem íbúar voru vanir að kíkja eftir hvölum í eina tíð.

Tvær strendur vinsælar fyrir surfing, þær heita Gaztetape og Malkorbe.

Mælt með að borða á May Flower, fallegt útsýni yfir höfnina, prófa local hvítvínið og smakka „salmonetes“ Elkano er annað gott en fínna veitingahús. Í Getaría er alltaf gist á sama stað, fallegt rautt hótel á 3 hæðum sem mægin reka saman, vel hugsað um gesti og það sem er algjörlega dásamlegt þarna er morgunmaturinn sem er framreiddur úti á svölum við fallega dúkuð borð og beint fyrir framan ólgar opið hafið, einn besti morgunmaturinn á þessari leið.

Deba

Deba er um 5000 manna bær frá 14. öld í Guipuzcoa héraði og það sama má segja um Deba og Getaría að þessi bær hefur allt, stendur við sjóinn, þar er strönd og fallegur fjallahringur og er bærinn þekktur fyrir náttúrufegurð. Jakobsstígurinn liggur fyrir ofan bæinn, gengið er ofan af hæð niður í bæinn og er síðasta spölurinn farinn í lyftu. Þessi bær byggir á gamalli arfleifð, en síðustu ár hefur orðið þar mikil uppbygging. Það sem haldið er á lofti hér sem markverðasta byggingin er að sjálfsögðu kirkjan iglesa de Santa María de Real, gotnesk kirkja og er inngangurinn sérlega fallegur. Við Placa Mayor eru veitingahús og oft glatt á hjalla sérstaklega um helgar.

Markina- Xemein

Nú er hafið horfið í bili, Markina er einnig um 5000 manna bær í héraðinu Bizkaia sem er eitt af héruðum Baskalands. Efnahagurinn byggist aðallega á jarðyrkju og landbúnaði eins og nautgriparækt. Einnig er hér timburvinnsla og járniðnaður. Hér er einnig vinnsla á verðmætasta marmara á Spáni; Marmol Negro sem er að verða sí verðmætari fyrir héraðið. Síðan er hér mekka hins baskneska boltaleiks; pelota.

Gernika

Gernika er hvað frægust fyrir samnefnt verk Picassos og lýsir andstyggð hans á voðaverkum sem framin voru í borgarstyrjöldinni á tímum Francos þegar hann með aðstoð Þjóðverja lét jafna Gerniku við jörðu í loftárásum 26. apríl 1937. Það má segja að þessi loftárás hafi orðið til þess að borgarastyrjöldin á Spáni varð heiminum þekkt. Í dag má segja að Gernika sé tákn friðar (museodelapaz.org). Í bænum er áhugavert safn: Museo de la Paz en þar má sjá og heyra það sem fram þegar árásin var gerð.

Í dag búa um 17 þús. manns í bænum sem er staðsettur í um hálftíma aksturfjarlægð frá Bilbao. Þinghús Baska er sérlega falleg bygging í neo klassískum stíl. Það má sjá mynd Picassos „ Gernica“ á vegg í bænum þegar gengið er eftir stígnum út úr bænum. Einnig er gengið framhjá

Gernikako Arbola en það er gamalt eikartré en þar hafa leiðtogar Baska í gegnum aldir svarið eið þess að halda vörð um frelsið sem tréð er tákn fyrir. Einnig komu þeir hér saman til að ræða um og búa til ný lög. Nafnið Gernikako Arbola er í raun nafn á á óopinberum þjóðsöng Baska. Sjá hér fyrsta erindi ljóðsins:

The Tree of Guernica
is blessed
among the Basques;
absolutely loved.
Give and deliver
the fruit unto the world.
We adore you,
holy tree.

Bilbao

Bilbao er síðasti áningarstaðurinn í fyrsta áfanga Norðurleiðar og er fjölmennasta borg Baskalands, með um 350 þús. íbúa. Áin Nervion rennur til sjávar í gegnum Bilbao og skiptir borginni í tvo hluta. Samgöngur við borgina eru ákaflega góðar, hvort sem er á lofti, láði eða legi. Flugvöllurinn við Bilbao er í 9 km fjarlægð frá borginni, flugvallarhúsið er hannað af arkitektinum Santiago Calatrava (2000), sem hannaði einnig eina af brúnum yfir ánna Nervion og sem staðsett er í miðri borginni.

Borgin hefur tekið stakkaskiptum undanfarna áratugi, eftir sem áður er hún iðnaðarborg með stóra iðnaðarhöfn en hefur breyst úr iðnaðarborg í nútímalega menningarborg þar sem Guggenheim safnið hannað af arkitektinum Frank Gehry (1997), setur sterkan svip á borgina. Á safninu er ætíð að finna áhugaverðar sýningar og það sama má segja um verkin sem eru í eigu safnsins mjög athyglisverð, allir kannast við hvuttann sem stendur fyrir framan safnið og er eitt af verkum Jeff Koons sem þar standa.

Matarmenning er í hávegum höfð í Bilbao, góðir tapas staðir eru víðsvegar að finna. Heimsækjum gamla bæinn en gaman er að rölta um þröngar göturnar sem alltaf eru fullar af lífi. Farið er á matarmarkaðinn El Mercado de la Ribera og á Plaza Nueva torgið er þar eru stórkostlegir tapas staðir, sumir státa af Michelin stjörnum og tilnefningum. Nýi miðbærinn er einnig heimsóttur, ein bygging þar er alltaf heimsótt en það er bókasafnið Biblioteca Foral de Vizcaya, förum ekki nánar út í ástæður þess hér. Umfram allt þá njótum við veru okkar í borginni eftir göngur undanfarna daga. Bilbao er ein af mínum uppáhalds borgum, hún hefur allt að bera; er hrein og snyrtileg, fallegur arkitektúr, bæði nýr og gamall, gott að skokka meðfram ánni Nervion, góður matur og hér iðar alltaf allt af lífi.