Pílagrímaferðir kenndar við Jakob hófust á níundu öld þegar gröf Jakobs postula, sem var einn af lærisveinum Jesú, fannst í Galicíu. Margar útgáfur eru til að sögunni um fund hinnar helgu grafar. Alfonso II konungur Galiciu sem sat við stjórnvölinn þegar gröfin fannst, gerði Jakob að verndardýrlingi og lét reisa kirkju yfir líkamsleifar hans í Compostela. Kristnin átti í vök að verjast á þessum tíma og var þessi „fundur“ grafar Jakobs því óspart nýttur í þágu kristninnar. Pílagrímaferðir til Santiago de Compostela hófust í kjölfarið og uxu jafnt og þétt milli 10. og 15. aldar.
Pílagrímaferðirnar höfðu mikil áhrif á Spáni, bæði menningarleg og fjárhagsleg. Sérstaklega í Compostela og öðrum borgum sem leiðin lá um eins og Burgos, Pamplona og León svo dæmi séu tekin. Verslanir og markaðir með varning spruttu upp víðsvegar einkum þó á El Camino Francés. Heilu þorpin mynduðust á helstu áningarstöðum pílagrímanna.
Þjónusta við pílagríma var nauðsynleg, sérstaklega við þá sem veikir voru. Þjónustan byggðist upp fyrst aðallega í kringum klaustrin sem byggð voru, eða voru til staðar við pílagrímaleiðirnar. Sérstakar byggingar voru síðan reistar til að hýsa pílagrímana, síðar komu svo til sögunnar sérstök sjúkrahús þar sem veitt var læknisþjónusta. Má hér nefna eitt af þeim stærstu; El Hospital del Rey í Burgos sem var reist í lok 12. aldar af Alfonso konungi VIII. Sjúkrahúsið var um margt sérstakt. Á löndum konungs umhverfis sjúkrahúsið var ræktað nánast allt sem til þurfti, kjöt, korn,ávextir, grænmeti og vín. Annað sem þurfti fékkst á markaðnum í Burgos í skiptum fyrir kjöt sem umfram var á spítalanum. Mataræðið á sjúkrahúsinu var líka um margt sérstakt, en mikill greinamunur var gerður á mataræði, á milli stétta og á milli pílagríma sem heilbrigðir voru og þeirra sem sjúkir voru. Læknar sjúrahússins notuðu lækningajurtir og ákváðu mataræði pílagrímanna, miðað við ástand þeirra hverju sinni.
Pílagrímaleiðirnar eru margar, oftast er talað um El Camino Francés sem er þeirra fjölförnust, hún er í kringum 800 km. El Camino Norte ( liggur um norðurströnd Spánar), hún er í kringum 815 km, El Camino Primitivo er í raun hluti af Norðurleiðinni El Camino Norte en líka er hægt að hugsa sér hana sem sjálfstæða leið, hún er í kring um 270 km. Fleiri mætti nefna, þær eiga þó allar það sameiginlegt að enda í Santiago de Compostela
(byggt á formála BA ritgerðar SÁG „La evolución de los hospitales en el Camino de Santiago).