Í ferðirnar hafa oftast valist fólk á miðjum aldri. Kannski er það tilviljun en á þeim árum er gjarnan litið yfir farinn veg og við áttum okkur á því að tíminn er okkar dýrmætasta auðlind. Við viljum verja honum vel. Í gönguferðum Jakobs gefst fólki tækifæri og andrými til að horfa fram á við, fara yfir lífið og meta hvað það er sem raunverulega skiptir okkur máli. Þetta eru atriði sem oft erfitt er að sjá í hvunndagslegum aðstæðum. Við þurfum fjarlægðina.
Á Norðurleiðinni meðfram strönd Spánar er gengið um sveitir og á milli þorpa, fagrar grænar hæðir og hafið bláa skiptast á.
Gengið er í fámennum hópum og í upphafi hvers dags er gengið í þögn.
Það skapast mikil nánd, en samt er það þannig að hægt er að ganga einn og útaf fyrir sig. Hver og einn stjórnar því. Hver og einn fær það næði sem hann þarf.
Einmitt þá gefst þetta gullna færi til að líta sér um öxl, skilgreina stöðuna og finna nýja valkosti, nýja möguleika, ný markmið.